Umsóknarferlið
Umsóknarferlið
Þökk fyrir að sýna því áhuga að starfa hjá Læknum án landamæra.
Smelltu hér til að senda inn umsókn og ferilskrá – Skjölin þurfa að vera á ensku.
Ef þú ert flóttamaður getum við því aðeins tekið við umsókn frá þér að þú sért með gilt norskt ferðaskírteini.
Kynntu þér umsóknarferlið nánar í eftirfylgjandi köflum:
- Upplýsingar
- Leit að starfi
- Viðtal
- Undirbúningsnámskeið
- Verkefni á vettvangi
- Brottför
Val á starfsfólki Lækna án landamæra á vettvangi fer fram samkvæmt eftirfarandi ferli:
1. skref: Upplýsingar
Kynntu þér samtök okkar og hugsanlega starfslýsingu þína sem starfsmanns á vettvangi. Auk þeirra úrræða sem finna má á heimasíðu okkar höldum við reglulega upplýsingafundi um verkefni á vettvangi á árinu. Upplýsingafundur er hluti af ráðningarferlinu og þú ættir að mæta á fund áður en þú leggur fram umsókn.
2. skref: Leit að starfi
Þegar þú álítur að þú uppfyllir kröfur okkar getur þú nýtt þér krækjuna neðst á síðunni til að senda inn umsókn þína. Nauðsynleg skjöl sem skila þarf eru: umsóknareyðublað, ferilskrá (hámark fimm síður) og ástæður umsóknar (hámark tvær síður).
Leggja verður fram öll þessi þrjú skjöl. Ófullnægjandi umsóknir verða ekki teknar til greina. Athugið: Gerð er krafa um eyðublað vegna hæfnismats í tengslum við ákveðnar stöður, en það sendir ráðningarstjóri okkar. Nánari upplýsingar um þetta er að finna á síðunni um starfslýsingu þína.
Umsókn þín verður metin af ráðningarstjóra fyrir vettvangsstörf og einnig getur verið nauðsynlegt að staðfesta ferilskrá þína tæknilega fyrir tiltekin störf. Þú færð svar innan fjögurra til sex vikna eftir að umsóknin barst.
Margt er ófyrirsjáanlegt sem tengist störfum að mannúðarmálum og því gæti það gerst að umsókn yrði hafnað, jafnvel þótt þú uppfyllir kröfur vegna stöðunnar sem sótt er um. Eftirspurn eftir mannauði á vettvangi er stöðugum breytingum háð og komið geta tímabil þar sem lítil þörf er fyrir fagfólk á þínu starfssviði. Við þær aðstæður hvetjum við þig til að sækja aftur um starf síðar.
3. skref: Viðtal
Umsækjendur sem uppfylla hæfniskröfur okkar og leggja fram sannfærandi bréf með ástæðum umsóknar sinnar ræða fyrst við ráðningastjóra í síma til að kanna stöðuna áður en boðið verður til nýliðunardags á skrifstofu okkar í Ósló. Öll viðtöl fara fram augliti til auglitis en hvorki í síma eða á Skype.
Læknar án Landamæra nálgast viðtöl á grundvelli hæfnigreiningaraðferða. Umsækjendur verða í viðtalinu beðnir um að tilgreina sértæk dæmi um aðstæður sem þeir hafa lent í og sýna fram á þekkingu, færni, reynslu og/eða atferlisleg einkenni sem við sækjumst eftir. Einnig verður lagt fyrir hópverkefni. Viðtalsferlið tekur yfirleitt heilan dag.
Skili viðtal fullnægjandi árangri þarft þú að leggja fram þrenn meðmæli, þar með talið frá núverandi/síðasta vinnuveitanda þínum.
4. skref: Undirbúningsnámskeið
Skili viðtal fullnægjandi árangri þarft þú fyrir brottför að taka undirbúningsnámskeið sem stendur í 6 til 10 daga, allt eftir hlutverki þínu, ásamt 30 öðrum nýliðum á vettvangi. Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á:
- skilning á gildum, sögu og starfsemi Lækna án landamæra
- kynningu á verkfærum og úrræðum sem eru fyrir hendi á vettvangi
- skilning á því hvernig við vinnum og fjölbreytni verkefna okkar
- kynningu á lífinu á vettvangi
- fund með þrautþjálfuðum starfsmönnum á vettvangi sem miðla reynslu sinni
- tækniþjálfun fyrir hvert verkefni fyrir sig, verkfæri, samskiptareglur og tölvuhugbúnað.
Námskeiðið er haldið nokkrum sinnum á ári hér og þar í Evrópu, þar á meðal í Ósló, og þátttakendur verða að dvelja á námskeiðsstað. Það ræðst af brottför þinni og tiltækum námskeiðsstöðum hvar þú sækir námskeið. Læknar án landamæra greiða útgjöld vegna ferða, fæðis og húsnæðis. Öllum er skylt að ljúka námskeiðinu áður en farið er á vettvang.
Takmarkaður fjöldi sæta er í boði á undirbúningsnámskeiðum. Þátttakendum er einkum forgangsraðað á námskeið á grundvelli væntanlegrar þarfar okkar á vettvangi næstu mánuðina, ásamt því á hvaða tíma þátttakendur geta komið til starfa á vettvangi. Listar yfir þátttakendur eru yfirleitt tilbúnir fjórum til sex vikum áður en námskeið hefst.
5. skref: Verkefni á vettvangi
Aðgangur að verkefnum ræðst af eftirspurn á vettvangi. Þetta er breytilegt frá einum tíma til annars. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa fulla yfirsýn yfir aðgengi að starfsfólki fyrir vettvang til þess að eiga sem best með að skipuleggja starfsemi þar sem erfitt er að átta sig a stöðunni. Það er því mjög mikilvægt að það sé alveg ótvírætt hvenær þú getur komið til starfa. Stöðugt þarf að upplýsa okkur um allar breytingar á aðgengi þínu til að koma í veg fyrir tafir í ferlinu við að finna stöðu fyrir þig á vettvangi. Sá starfsmaður mannauðsdeildar sem ábyrgð ber á þínu hlutverki finnur rétta stöðu á vettvangi. Haft verður samband við þig þegar staða losnar sem hentar kunnáttu þinni, reynslu og aðgengi.
Starfsmaður á vettvangi getur ekki valið sér eitthvert tiltekið land til starfa. Verkefnin eru alltaf skipulögð í samræmi við þarfir á vettvangi og starfsmenn þar verða beðnir um að sýna sem mestan sveigjanleika þegar þeim er skipað þangað sem þörfin er brýnust. Þetta er ferli sem byggist á ákveðinni samkeppni þar sem besti umsækjandinn er fundinn í hverja þá stöðu sem í boði er á heimsvísu. Ferlið getur gengið hratt fyrir sig en það getur líka tekið marga mánuði.
Sá starfsmaður mannauðsdeildar sem ber ábyrgð á hlutverki þínu sendir þér starfslýsingu og upplýsingar um landið, öryggismál og verkefnið þegar þér er boðið starf. Ef þú samþykkir verkefnið staðfestir starfsmaðurinn tilboðið. Þegar verkefni er staðfest er yfirleitt ekki hægt að gera ráð fyrir nema þriggja til fjögurra vikna fyrirvara fyrir brottför. Þurfir þú aðeins eina eða tvær vikur til undirbúnings geta fleiri verkefni á vettvangi verið í boði.
6. skref: Brottför
Þegar þér hefur verið úthlutað verkefni aðstoðar mannauðsteymið í Ósló þig við að ganga frá öllum formlegum og hagnýtum undirbúningi fram að brottför.
Þú færð einnig upplýsingar og kynningu á skrifstofunni í Ósló og ef vill í einhverri alþjóðlegu höfuðstöðvanna áður en farið er á vettvang en það er ekki fyrr en þangað er komið að þú færð nákvæmar upplýsingar um verkið og starfið.
Þú verður ráðin/n til starfa hjá Læknum án landamæra í Ósló á tímabundnum samningi um þann fjölda mánaða sem þú verður að störfum.
Og svo heldur þú af stað í þitt fyrsta verkefni á vettvangi!
Smelltu hér til að senda inn umsókn og ferilskrá – Skjölin þurfa að vera á ensku.