Lífið á vettvangi

Foto: Gabriele François Casini

Lífið á vettvangi


Hjem > Island > Lífið á vettvangi
31.05.2021 | Oppdatert 07.06.2021
        

Drifkraftur

Hver og einn hefur sínar ástæður fyrir að vilja vinna á vettvangi, en við greinum nokkur sameiginleg gildi sem eru mikilvæg öllum þeim sem velja að vinna í teymunum okkar:

  • Vilji til að helga hluta lífs síns fólki sem þarfnast hjálpa

  • Vilji til að skuldbinda sig yfir lengri tíma með endurtekinni þátttöku í verkefnum. (Fyrsta verkefni telst til þjálfunar)

  • Raunverulegur áhugi á fólki frá öðrum menningarheimum

  • Geta og löngun til að miðla þekkingu, reynslu og færni til annarra

  • Vilji til að ögra sér í sínu fagi, persónulega og menningarlega

  • Að vera reiðubúinn að færa þá persónulegu fórn sem felst í því að vera fjarri fjölskyldu og vinum í lengri tíma

Hegðun á vettvangi

Læknar án landamæra vinna stöðugt að því fyrirbyggja og hindra að nokkur maður verði fyrir mismunun, áreitni eða misnotknun í verkefnum okkar. Þess vegna þurfa allir sem vinna fyrir okkur að fylgja ströngum verklagsreglum og taka þátt í forvarnarstarfi.

Lestu meira: Átak gegn mismunun, áreitni og misnotkun innan Lækna án landamæra

Ert þú tilbúinn? Nokkrir hlutir sem þarf að íhuga áður en sótt er um

Þú þarft að vera meðvitaður um þær áskoranir sem vettvangsstarfsmenn standa gjarnan frammi fyrir þegar þeir vinna og búa í framandi umhverfi við afar erfiðar og streituvaldandi aðstæður.

Upplýsingarnar og spurningarnar hér að neðan eru hannaðar til að hjálpa þér að meta eigin drifkraft, faglegan metnað og tilfinningalegan stöðugleika. Það er mikilvægt að þú gefir þér tíma til að velta fyrir þér og íhuga ærlega hvers vegna þú vilt þetta, hvaðan áhugi þinn á  mannúðaraðstoð á þeim svæðum sem við störfum á kemur og hvort þú gerir þér grein fyrir þeim fjölmörgu áskorunum þú munt mæta á meðan þú ert á vettvangi.

Vinsamlegast íhugaðu eftirfarandi upplýsingar vandlega áður en þú sendir inn umsóknina þína.

Áður en sótt er um starf hjá Læknum án landamæra þarft þú að hafa í huga að við vinnum að því að veita heilbrigðisþjónustu fyrir viðkvæmustu hópana í löndum þar sem:

  • Mannréttindabrot geta átt sér stað

  • Samkynhneigð getur verið refsiverð samkvæmt lögum

  • Konur, börn og menn, háð félagslegri- eða þjóðernislegri stöðu eða stöðu innan ættbálkar, hafa ekki endilega sömu réttindi og eru almennt samþykkt og viðurkennd á Norðurlöndum

  • Nauðganir geta verið notaðar sem vopn í stríði

  • Smitsjúkdómar og faraldrar eru algengir

  • Fólk hefur ekki aðgang að sömu lífsnauðsynlegu lyfjum eða þjónustu og við lítum á sem sjálfsagðan hlut á Norðurlöndunm

Vinnu- og lífsskilyrði á vettvangi

Verkefnin okkar geta verið staðsett á afskekktustu stöðum í heimi, oft á erfiðum svæðum með takmörkuðum auðlindum og þægindum. Þetta getur þýtt að þú hafir aðeins aðgang að einföldum lækningatækjum og rekstrarvörum, litlu úrvali af mat (hrísgrjón og baunir), komist í kynni við dýrategundir sem þú ert ef til vill ekki vanur heima (orma, leðurblökur, sporðdreka) og getir stundað fáar tómstundir (útgöngubann og einungis skokk í kringum húsið sem þú býrð í).

Að vinna á alþjóðavettvangi með Læknum án landamæra krefst þess að þú aðlagist ókunnugum mat, húsnæði, hraða lífsins, tungumáli og fólki sem þér kemur vel saman við eða ekki. Hvert sem þú ferð mætir þér gjörólíkur lífsstíll auk þess sem einkalíf þitt og frítími getur verið mjög takmarkaður. Það er ekki víst að þú munir hafa tækifæri til að stunda líkamsrækt, eiga félagslíf utan teymisins eða hafa aðgang að interneti allan þann tíma sem á verkefninu stendur.

Læknar án landamæra útvega þér gistingu, oft með fleiri starfsmönnum á vettvangi. Stundum þarft þú einnig að deila herbergi og baðherbergi með öðrum starfsmönnum á vettvangi. Aðbúnaður er einfaldur, en vatn og hreinlætisaðstaða eru í forgangi og internet þar sem það er mögulegt.

Það myndast oft sérstakt samband milli meðlima verkefnahópsins sem koma frá mismunandi löndum, með mismunandi bakgrunn og reynslu. Þetta skapar sterka sameiginlega tilfinningu fyrir tilgangi og kallar á útsjónarsemi og hugvit við að hrinda hlutum í framkvæmd, ásamt mikilli sjálfsprottinni skemmtun.

Hafðu hugfast:

  • Hljómar tilhugsunin um að búa í tjaldi eða í hefðbundnum afrískum tukul (moldarkofi með stráþaki þar sem skordýr geta haldið til) í langan tíma eins og skemmtileg áskorun eða þín versta martröð?

  • Viltu takast á við erfið veðurskilyrði eins og mikinn hita eða kulda, mikinn raka, mikla rigningu eða þurr eyðimerkurskilyrði í langan tíma án aðgangs að viftu, loftkælingu eða hitara?

  • Getu þú afborið mikið af skordýrum?

  • Þolir þú að nota kamar sem er bara hola í gólfinu? Hljómar fötu-sturta við kertaljós (vegna takmarkaðs aðgangs að rafmagni og kannski rennandi vatni) eins og önnur skemmtileg áskorun? (eða önnur martröð?)

  • Getur þú borðað hrísgrjón og baunir og síðan baunir og hrísgrjón í flest mál marga mánuði í senn? (ok, þetta eru kannski smá ýkjur, en takmarkað fæðuúrval getur verið algengt á vettvangi)

  • Getur þú lagað þig að því að hafa að hluta til mjög takmarkað næði, sjaldan tækifæri til félagslegrar samveru og aðeins aðgang að internetinu af og til?

Þvert á menningarheima

Að vinna innan framandi menningar getur leitt til misskilnings í samskiptum og mismunandi viðhorfa. Þú gætir verið í landi þar sem fólk hefur allt aðrar hugmyndir hvað varðar stundvísi í vinnunni, ábyrga hegðun eða virðingu fyrir persónulegu rými. Það er mikilvægt að vera athugull og umburðarlyndur gagnvart fólki sem ekki hegðar sér eða hugsar eins og þú.

Hugleiddu hæfileika þína til að lifa náið með og bera virðingu fyrir fólki með aðra trú og menningu en þú sjálfur:

  • Hefur þú einhvern tíma búið við menningu sem er allt önnur en sú sem þú ólst upp í?

  • Ertu opinn fyrir því að samþykkja að það séu til fleiri en ein leið til að gera hlutina og að þín leið sé ekki endilega sú „rétta“ í öllum tilvikum?

  • Líkar þér við áskorunina sem fylgir því að eiga í samskiptum við fólk sem hefur annan tungumálalegan og/eða menningarlegan bakgrunn en þinn eiginn?

Einkalíf /fjölskylda

Að vinna á alþjóðavettvangi hefur í för með sér fjarveru frá ástvinum þínum í langan tíma í senn - yfirleitt 6 til 12 mánuði.

Sumir líta á mannúðaraðstoð sem lausn eða flótta frá erfiðum persónulegum aðstæðum heima við. Tilfinningalegt jafnvægi er lykilatriði í að takast á við mjög streituvaldandi og krefjandi aðstæður á vettvangi.

Leiddu hugann að því hvernig vinna í erfiðum aðstæðum getur haft áhrif á andlega heilsu þína. Það getur verið spennandi að fara á vettvang, en að snúa aftur heim úr vettvangsferð þar sem þú hefur hugsanlega orðið vitni að áföllum, getur verið erfitt fyrir þig og fjölskylduna þína. Margir starfsmenn okkar segja að það sé erfiðast að koma heim.

Hugsaðu um þetta:

  • Hefur þú velt fyrir þér afleiðingum þess að setja einkalíf þitt heima fyrir á ís í allt að því eitt ár?

  • Getur þú ráðið við að hafa sjaldan og/eða óreglulega samband við fjölskyldu og vini?

  • Geta vinir þínir og fjölskylda einnig ráðið við þetta?

Streita

Mannúðarstarf er oft mjög streituvaldandi, sérstaklega í krísuaðstæðum. Það er margt við starfsemi okkar sem getur valdið streitu og dregið úr metnaði þínum fyrir vinnunni. Stirð samskipti við aðra teymismeðlimi sem þú bæði býrð og vinnur með, heilsufarsvandamál, skortur á samskiptum við vini og vandamenn heima, öryggisaðstæður, tíðar breytingar á verkefninu, erfið samskipti við yfirvöld á staðnum, mikið álag, há dánartíðni meðal sjúklinga þinna, slæm lífsskilyrði og lélegt mataræði.

Hugsaðu um hvernig þú höndlar streitu í þínu daglega lífi. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig. Ef þú óttast átök og reynir að forðast þau hvað sem það kostar, þá er vettvangsstarf líklega ekki fyrir þig. Þegar þú ert hluti af teymi verður þú alltaf að vera tilbúinn til að finna lausnir og verður að sjá um breytinguna sjálfur í meira mæli en hér heima:

  • Ertu fær um að takast á við vandamál og/eða átök þegar þau koma upp?

  • Hefur þú einhvern tímann búið og unnið með sama fólkinu í lengri tíma?

  • Ertu góður miðlari og leiðbeinandi? Lýsir fólk þér sem góðum hlustanda? Finnurðu leiðir til að leysa vandamál meðal samstarfsmanna og meðal vina?

  • Getur þú lagt persónuleg vandamál til hliðar til að vinna verkið?

  • Ertu með fullkomnunaráráttu? Okkar starf er að miklu að leyti málamiðlun frekar en fullkomnun.

  • Ertu fær um að skoða og aðlaga hegðun þína til að takast á við aðstæður?

Eitt síðasta atriði sem þarfnast umhugsunar

Þessum dæmum er ætlað að vera veruleikaatriði varðandi það hvað það þýðir að vinna fyrir okkur. Við vonum að þú hafir ígrundað þessi atriði vel. Þó að það sé mikilvægt að hafa þetta allt hugfast, má ekki gleyma því að þúsundir manna hafa unnið með okkur í gegnum tíðina og komist að því að reynslan sé krefjandi, en einnig mjög gefandi. Fyrir mörg okkar hefur sú ákvörðun að vinna á vettvangi verið reynsla sem við hefðum ekki viljað fara á mis við.

Að vinna fyrir Lækna án landamæra er ekki bara vinna eða nýtt ævintýri. Með því að vinna á vettvangi tekur þú afstöðu með hópum í neyð. Þú deilir okkar sjónarmiði um að það séu ekki til neinir „hinir“ heldur séu bara til „við“ hér á jörðinni: að fara út með okkur felur í sér að viðurkenna þetta.

Vinsamlegast horfðu á þetta stutta myndskeið og veltu fyrir þér af hverju þú vilt vinna fyrir Lækna án landamæra áður en þú lest áfram eða byrjar að skrifa umsóknina:

 

 LESA LÌKA 
 
STØTT OSS
Bli fast giver
Med private gaver kan vi hjelpe dem som trenger det mest, uavhengig av politikk og myndigheter.
ENGASJER DEG
Få nyhetsbrev
Få en dypere innsikt i vårt arbeid.

⇑  Til toppen